Erfðamengi Spotify

miðvikudagur, 2. október 2019

Júlíus Karlsson

Fundurinn 26.9 var með hefðbundnu sniði. Forseti fór yfir starf vetrarins fram til áramóta og er margt spennandi framundan og mörg áhugaverð erindi fyrir klúbbfélaga. Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir heimsótti klúbbinn í 26.9 sl. og hélt erindi sem hún valdi að kalla Erfðamengi (DNA) Spotify. Lilja starfaði hjá Spotify frá 2014 til 2018. Lilja var yfir rannsóknum og þróun til að byrja með en tók síðar við mannauðsmálum Spotify. Á þeim árum sem hún var mannauðsstjóri fjölgaði mjög í starfmannahópi Spotify eða úr nokkur hundruð í nokkur þúsund manns. Lilja lýsti vel hvernig tekið var á mannauðsmálum í sístækkandi nýsköpunar og sprotafyrirtæki. Hress andi og einlægni í öllum samskiptum voru ráðandi. Lilja lagði mikla áherslu á gildi fyrirtækisins og að lifa þau í daglegu amstri. Einnig lýstu hún vel hvernig þau notuðu gildin til að taka á móti nýju starfsfólki til að kenna þeim gildin og hafa þau í hávegum í öllu starfinu. Lilja er nú komin heim og starfar sem mannauðsstjóri hjá sprotafyrirtækinu Taktikal sem vinnur að hugbúnaðarlausnum fyrir bankageirann. Lilja er greinilega ekki hrædd við áskoranir en hress og skemmtilega framsetning hennar gladdi fundarmenn og kunnum við henni góðar þakkir fyrir skemmtilegt og uppörvandi erindi.