Rótarýklúbburinn Straumur-Hafnarfjörður

Á vordögum 1997 var hafin vinna við að stofna nýjan rótarýklúbb í Hafnarfirði. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hafði árið áður haldið upp á 50 ára starfsafmæli sitt. Klúbburinn var orðinn mjög fjölmennur og grundvöllur talinn fyrir öðrum rótarýklúbbi í Hafnarfirði. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar tók að sér að vera móðurklúbbur hins nýja klúbbs. Gísli Jónsson félagi í Rótarý Hafnarfjarðar tók að sér undirbúningsvinnuna sem hann vann af mikilli ákefð og dugnaði. Aldrei stóð þó til að Gísli færðist yfir í nýja klúbbinn. Samkvæmt reglum Rótarý yrði þetta blandaður klúbbur karla og kvenna. Stofnfundurinn var haldinn í Hafnarborg fimmtudaginn 5. júní 1997. Til fundarins boðuðu Jón Hákon Magnússon, formaður útbreiðslunefndar Rótarýumdæmisins á Íslandi og Gísli Jónsson, formaður undirbúningsnefndar Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Stofnfélagar voru 19, og fluttust 4 félagar úr Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar í nýja klúbbinn. Óskar Valdimarsson var fyrsti forseti klúbbsins. Fram fór skrifleg skoðanakönnun meðal félagsmanna um nafn á klúbbnum og varð sérnafnið Straumur fyrir valinu.