Einar Rúnar Axelsson - starfsgreinarerindi

fimmtudagur, 30. janúar 2020

Júlíus Karlsson

Einar Rúnar Axelsson læknir og félagi í klúbbnum hélt starfsgreinaerindi og byrjaði á að spila lagið ,,Ég mann ekki neitt” með Bogomil Font og uppskar gleði og hlátur félaganna.

Einar leiddi okkur í gegnum starfsferillinn sem spannar allt frá trésmíði á menntaskólaárunum, hjúkrunarstörf á háskólaárunum, kandídatsár og sérfræðinám í Svíþjóð, heimilslæknir á Ísafirði 1992 – 1996, Vogur 1997 til 2004 og við tóku heimilslækningar í Kringlunni og nú í Lágmúla. Einar lýsti árunum á Ísafirði sem voru mikil lífsreynsla en Einar var kallaður til læknisstarfa við björgun úr snjóflóðunum fyrst í Tungudal 1994, Súðavík í Janúar 1995 og síðast á Flateyri í október 1995. Einar lýsti vel þeim áskorunum sem hann stóð frammi fyrir en þakkaði björgunarsveitunum fyrir fumlaus vinnubrögð og frábært skipulag sem hann lærði mikið af. Það er ljóst að Einar hefur fengið vænan skammt af lífsreynslu sem ungur læknir við einhverjar erfiðustu aðstæður sem hægt er hugsa sér. Erindið var mjög fróðlegt og gaf okkur innsýn í læknisstörf þar sem háð er barátta upp á líf og dauða. Við þökkum Einari fyrir frábært erindi.