Félagar í Hofi komu í heimsókn

fimmtudagur, 2. nóvember 2023

Margir góðir gestir voru á klúbbfundi hjá okkur í Straumi í morgun þegar 11 félagar úr Rótarýklúbbnum Hofi í Garðabæ mættu í heimsókn. Var þeim tekið fagnandi en sjaldan sem við fáum marga í einur í heimsókn á fund hjá okkur kl. 7 að morgni. Hafði einn á orði að langt væri síðan hann hefði verið í Hafnarfirði á þessum tíma og hefur þá líklega verið á heimleið eftir skemmtun í bænum.

Hjalti Þór Guðmundsson, fyrrum rótarýskiptinemi og forstöðumaður ökutækjatjónasviðs hjá Sjóvá, var með erindi dagsins og sagði hann frá upplifun sinni sem skiptinemi í Brasilíu 2001-2. Var hann 28. skiptineminn sem Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar sendi út en faðir Hjalta er rótarýfélagi þar. Þá sagði hann frá starfi sínu hjá Sjóvá, frá markmiðum félagsins í umhverfismálum og fræddi okkur um áherslu á að hvetja fólk til að láta gera við stjörnur í framrúðum bíla í stað þess að skipta þeim út, sem sparar mikið kolefnisspor.

Var klúbbfélögum boðið að koma í heimsókn til Hofs sem tekið var fagnandi og sáu sumir fram til þess að geta þá sofið út en fundir Hofs, sem eru í skátaheimilinu Jötunheimum í Garðabæ, hefjast ekki fyrr en kl. 8 að morgni.

Guðmundur Ámundason, forseti Straums setur fundinn

Hjalti Þór Guðmundsson, fyrrum skiptnemi Rótarý var fyrirlesari fundarins

Gísli B. Ívarsson, forseti Straums

Hjalti sagði frá ánægjulegri dvöl sinni hjá þremur fjölskyldum í Brasilíu