Bergið headspace - hvernig varð það til?

fimmtudagur, 24. október 2019 07:00-08:00, Sjálfstæðissalurinn Norðurbakki 1 220 Hafnarfjörður
Bergið headspace er þjónusta fyrir ungt fólk, undir 25 ára. Þjónustan er fyrsta stigs þjónusta og ekki þarf að uppfylla nein skilyrði til að fá þjónustu. Ungmenni geta fengið viðtal við ráðgjafa helst samdægurs en annars innan tveggja sólahringa. boðið er upp á stuðning sem sniðin er að þörfum hvers og eins, á forsendum hvers og eins. Ungmennin stjórna því sem boðið er upp á. 

Starfandi ráðgjafar eru með breiða fagþekkingu og reynslu, einnig munu sjálfboðaliðar koma að starfi Bergsins.
Þörf á slíkri þjónustu er mikil fyrir þennan hóp. Rannsóknir sýna að þessi aldurshópur sækir sér ekki mikla hjálp fyrr en vandinn er orðinn mikill. Að vera unglingur og ung manneskja getur verið flókið og vill Bergið ná til ungmenna fljótt og vel.
Fimm ráðuneyti hafa veitt Berginu styrk sem tilraunverkefni til tveggja ára, einnig hefur Reykjavíkurborg og Virk stutt við Bergið á þessu ári. Þessi framlög ná yfir um helming þess kostnaðar sem rekstur Bergsins kostar. Það sem upp á vantar hefur komið frá einkaaðilum, s.s. einstaklingum, góðgerðarfélögum og minningarsjóðum.

Sigurþóra Bergsdóttir sem er vinnusálfræðingur og framkvæmdastjóri Bergsins headspace mun segja okkur frá starfinu. Sigurþóra stofnaði samtök um stuðningssetur fyrir ungt fólk í september 2018.  Markmið þeirra var að koma á fót betra meðferðarúrræði fyrir ungt fólk á Íslandi.  Bergið opnaði svo dyr fyrir ungmennum í ágúst 2019, aðeins 11 mánuðum eftir stofnun samtakanna.  Sigurþóra mun fara yfir aðdraganda stofnunar samtakanna og hvernig þau fóru að því að koma Berginu á fót.