Á fundi okkar 6. febrúar mun Hulda Styrmisdóttir sem er verkefnastjóri á skrifstofu mannauðsmála á Landspítalanum flytja okkur erindi undir yfirskriftinni "Samskiptasáttmáli á Landspítala: af hverju og til hvers". Hulda starfar við það að styðja stjórnendur og starfsmenn, sem hún gerir með aðferðafræði markþjálfunar en hún er hluti af stuðnings- og ráðgjafateymi spítalans.
Hulda hefur starfað við stjórnun og ráðgjöf bæði í einkageiranum og opinbera geiranum; var m.a. framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka í upphafi aldarinnar, stjórnandi á velferðarsviði Reykjavíkur á miklum breytingatímum um og eftir hrun og kenndi því næst stjórnun og leiddi meistaranám í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hún hefur líka setið í stjórnum, þ.á.m. í Nýja Kaupþingi á sínum tíma og svo seinna í Bankasýslu ríkisins. Hún lærði fyrst hagfræði í Bandaríkjunum og tók svo MBA í Frakklandi en færði sig smátt og smátt yfir i mannauðs- og starfsumhverfismálin; tók fyrst diplómu í klínískri vinnusálfræði með áherslu á breytingastjórnun og markþjálfun og svo í fyrra, eftir að hún hóf störf á spítalanum, diplómu í sálgæslu frá Endurmenntun HÍ.
Hún er líka alin upp með áhuga á geðheilbrigðismálum því móðir hennar glímdi við geðhvörf í 50 ár og eins og oft í slíkum aðstæðum þá var nánasta fjölskylda mesti stuðningsaðilinn. Hulda bjó í Hafnarfirði í tuttugu og sex ár, en flutti í miðbæ Reykjavíkur í fyrra. Synir hennar þrír eru Hafnfirðingar, aldir upp í Norðurbænum og áttu langömmu og langafa sem bjuggu á Tjarnarbraut. Þeir eru á aldrinum 18- 26 ára, eru í námi hér og erlendis og eitt af áhugamálum Huldu um þessar mundir er að læra að verða betri fullorðinsmamma.
Samskiptasáttmálinn: Vorið 2018 var ákveðið að ráðast í gerð samskiptasáttmála á Landspítala. Haldnir voru 50 fundir sem um 700 starfsmenn tóku þátt í og varð samskiptasáttmálinn til upp úr efni frá þeim fundum. Tilgangurinn með sáttmálanum er að auka öryggi sjúklinga og bæta líðan starfsmanna.